Kærður fyrir ummæli um samherja

Rodrigo Bentancur og Son Heung-Min í landsleikjum með þjóðum sínum.
Rodrigo Bentancur og Son Heung-Min í landsleikjum með þjóðum sínum. Ljósmynd/Samsett

Enska knattspyrnusambandið hefur kært Rodrigo Bentancur, miðjumann Tottenham Hotspur, fyrir ummæli sem hann viðhafði um samherja sinn, fyrirliðann Son Heung-Min.

Bentancur kom sér í vandræði í sjónvarpsviðtali fyrir leik með úrúgvæska landsliðinu í Ameríkubikarnum í sumar.

Fjölmiðlamaður spurði þá hvort hann gæti orðið sér úti um keppnistreyju frá einhverjum liðsfélaga sinna.

„Geturðu orðið mér úti um treyju Kóreubúans?“ spurði fjölmiðlamaðurinn.

„Sonny?“ spurði Bentancur þá.

„Eða einhvers annars meistara?“ spurði fjölmiðlamaðurinn.

„Eða einhvers frænda Sonnys? Þeir líta allir nokkurn veginn eins út!“ sagði Bentancur þá.

„Já auðvitað!“ svaraði fjölmiðlamaðurinn.

Lét móðgandi orð falla

Bentancur bað Son innilega afsökunar stuttu síðar en enska knattspyrnusambandið metur það sem svo að Úrúgvæinn hafi brotið gegn E3.1-reglu sambandsins þar sem hann hafi hagað sér með óviðeigandi hætti með því að láta móðgandi orð falla.

Hefur Bentancur til 19. september til þess að bregðast við ákærunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert