Nottingham Forest vann sögulegan sigur á Liverpool á Anfield í dag í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, 1:0.
Forest hafði ekki unnið þar leik í 55 ár, eða frá árinu 1969.
Liverpool er áfram í öðru sæti deildarinnar þrátt fyrir tapið með 9 stig en Forest er enn taplaust og er komið í fjórða sætið með 8 stig.
Fyrri hálfleikurinn var rólegur framan af en fyrsta færi leiksins kom á 16 mínútu þegar Luiz Díaz vann boltann við endalínu, keyrði inn í teig og átti gott skot í stöngina.
Næsta færi var líka Liverpoolmanna en þá var það Diogo Jota sem átti skot af stuttu færi eftir frábæra sendingu frá Alexis Mac Allister en skotið fór beint á Matz Sels í markinu.
Seinasta færi fyrri hálfleiksins var ansi skondið en Díaz átti slakan skalla beint á Sels sem missti boltann gegnum klofið á sér en náði að grípa hann áður en hann fór yfir marklínuna.
Það gerðist ekkert í seinni hálfleiknum fyrr en á 72 mínútu þegar Nottingham Forest skorar frábært mark en það var Callum Hudson-Odoi sem skoraði markið, 1:0.
Liverpool komst aldrei nálægt því að jafna leikinn og sigur Forest staðreynd.
Næsti leikur Liverpool í deildinni er gegn Bournemouth en Nottingham Forrest spilar gegn Brighton.