Verður hann áfram í ensku deildinni?

Joel Matip er líklegur til að spila áfram á Englandi.
Joel Matip er líklegur til að spila áfram á Englandi. AFP

Svo kann að fara að kamerúnski knattspyrnumaðurinn Joel Matip, sem kvaddi Liverpool í sumar þegar samningur hans rann út, taki upp þráðinn að nýju í ensku úrvalsdeildinni.

Hann er nú orðaður við þrjú lið í deildinni en Matip getur gengið strax til liðs við nýtt félag þar sem hann er samningslaus.

West Ham hefur sýnt Matip mikinn áhuga en samkvæmt enskum fjölmiðlum hafa nú Bournemouth og Fulham líka sett sig í samband við varnarmanninn öfluga.

Matip er 33 ára gamall, fæddur og uppalinn í Þýskalandi, og hefur aðeins leikið með tveimur félögum á ferlinum. Schalke frá níu ára aldri og til ársins 2016, þegar hann gekk til liðs við Liverpool og lék þar í átta ár. Matip lék 27 landsleiki fyrir Kamerún en hætti að gefa kost á sér í landsliðið fyrir níu árum.

Hann missti af stórum hluta síðasta tímabils, spilaði aðeins tíu leiki í úrvalsdeildinni og 14 mótsleiki alls fyrir Liverpool, en lék 201 leik fyrir félagið á átta árum, 150 þeirra í úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert