John McGinn, miðjumaður Aston Villa, tekur í sama streng og Alisson og Rodri sem hafa kvartað yfir of miklu leikjaálagi fyrir knattspyrnumenn. McGinn segir erfitt fyrir leikmenn að jafna sig andlega á milli leikja.
„Ég hef verið á báðum hliðum peningsins. Þegar við vorum um miðja deild spiluðum við ekki of marga leiki og vildum spila oftar og njóta velgengni. Það var því gleðiefni að komast í Evrópukeppni en það er erfitt að spila sjötíu leiki og svo bætast landsleikir við,“ sagði Skotinn sem hefur verið lykilmaður Aston Villa undanfarin ár.
„Sem betur fer fáum við vel greitt fyrir að gera það sem við elskum en stundum þarftu að kúpla þig út andlega og það er lítill tími til þess. Jafnvægið þarf að vera betra og það eru margir að berjast fyrir því“, bætti McGinn við en heimsmeistarakeppni félagsliða er spiluð á sumrin og styttir þar með frí leikmanna umtalsvert.
„Þegar tímabilinu lýkur eru leikmenn uppgefnir og þrá að komast í burtu frá fótbolta en það er enginn tími til stefnu lengur fyrir það. Heilsa fólks er mikilvægust í þessari umræðu og vonandi finnst gott jafnvægi“, sagði miðjumaðurinn sterki.