Martin Zubimendi er sagður hafa hafnað veglegu samningstilboði Real Sociedad og vill ólmur fara til Liverpool í janúarglugganum. Miðjumaðurinn sér eftir því að hafa hafnað tilboði Liverpool í sumar en Sociedad fer illa af stað á tímabilinu.
Sociedad hefur einungis fengið fjögur stig í fyrstu sex leikjum spænsku deildarinnar en félagið seldi Mikel Merino til Arsenal og Robin Le Normand til Atletico Madrid í sumar. Orri Steinn Óskarsson var keyptur til félagsins í byrjun september.
Spænskir fjölmiðlar greina frá því að Zubimendi hafi hafnað stórum samningi og hafi sett stefnuna á að skipta til Englands í janúar þar sem Liverpool er líklegasti áfangastaðurinn.