Íslandsvinurinn Sir Jim Ratcliffe, meðeigandi hjá enska knattspyrnufélaginu Manchester United, ræddi við breska ríkissjónvarpið um stöðu félagsins.
Sæti hollenska knattspyrnustjórans Erik ten Hag er orðið ansi heitt eftir slæma byrjun á leiktíðinni og margir sem spá því að hann verði rekinn innan skamms.
Liðið er í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, með tvo sigra í sex leikjum. Þá hefur það leikið fjóra leiki í röð án sigurs og var heppið að ná jafntefli við Porto í Evrópudeildinni í gærkvöldi, þrátt fyrir að komast í 2:0.
„Ég vil ekki svara þessari spurningu. Mér líkar vel við Erik og hann er góður þjálfari, en í lok dags er þetta ekki mín ákvörðun,“ svaraði Ratcliffe, aðspurður út í framtíð Hollendingsins.