„Vandræðalegt að 36 ára maður hafi verið valinn bestur“

Jonny Evans.
Jonny Evans. AFP/Ben Stansall

Dimitar Berbatov, fyrrverandi framherji enska knattspyrnufélagsins Manchester United, sparaði ekki stóru orðin eftir jafntefli liðsins gegn Aston Villa í 7. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í Birmingham í gær.

Leiknum lauk með markalausu jafntefli, 0:0, og var leikurinn lítið fyrir augað en Jonny Evans, varnarmaður United, var valinn maður leiksins hjá ensku úrvalsdeildinni í leikslok.

Berbatov, sem er 43 ára gamall, lék með United frá 2008 til 2012 en hann lagði skóna á hilluna fyrir sex árum síðan.

Reyna að finna réttu orðin

„Ég er að reyna að finna réttu orðin hérna,“ sagði Berbatov sem var sérfræðingur hjá Sky Sports í umfjöllun miðilsins um leikinn.

„Allir leikmenn United ættu að skammast sín. Það er vandræðalegt að 36 ára maður hafi verið valinn bestur. Jonny Evans á auðvitað hrós skilið fyrir sýna frammistöðu og allt það en þetta er vandræðalegt fyrir leikmenn liðsins. 

Allir leikmenn United, sem eru yngri en Jonny Evans, ættu að taka þetta til sín og gera miklu betur í næsta leik,“ bætti Berbatov við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka