„Stjórnendur United skilja ekki fótbolta“

Graeme Souness.
Graeme Souness.

Graeme Souness, sparkspekingur og fyrrverandi knattspyrnumaður, vandar þeim sem halda um stjórnartaumana hjá enska félaginu Manchester United ekki kveðjurnar.

„Ég tel félagið vera á lægsta punkti sem það hefur verið í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, með minnstu gæði í leikmannahóp sínum á þeim tíma. Ég lít á Manchester United síðan INEOS tók við og það öskrar á mig að þeir skilja í rauninni ekki fótbolta.

Þeir eru núna komnir með svokallað fótboltafólk, Dan Ashworth og Jason Wilcox, í stjórnunarstöður og ég trúi því ekki að þeir hafi ekki haft eitthvað að segja með leikmennina sem voru keyptir í sumar,“ sagði Souness í hlaðvarpsþættinum Three Up Front.

Ekki er hægt að segja að hann sé hrifinn af þeim kaupum.

Skrifast á Ashworth

„Þeir fengu inn Manuel Ugarte, Matthijs de Ligt og Joshua Zirkzee. Ef þeir halda að þessir leikmenn séu nógu góðir fyrir United hafa þeir rangt fyrir sér. Þeir leyfðu því samt að gerast að 200 milljónum punda var eytt í svona leikmenn.

Þeir hafa verið í eitt sumar hjá félaginu og sjáið hvernig þeir vörðu því. Það verður að skrifast á Ashworth,“ sagði Souness, sem tjáði sig einnig um Rúben Amorim sem reiknað er með að taki við sem knattspyrnustjóri bráðlega.

„Verkefni Rúbens Amorims núna er að ná sem mestu út úr þessum hópi leikmanna, í hvaða leikkerfi sem það verður. Hann gengur inn í mjög erfitt starf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka