Ruben Amorim, nýráðinn knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United, hefur sagt að hann hefði viljað klára tímabilið með Sporting í Portúgal en honum hafi verið settur stóllinn fyrir dyrnar og sagt að hann yrði að taka ákvörðun strax.
Amorim var staðfestur sem stjóri Manchester United á föstudag og mun hann stýra leikjum Sporting gegn Manchester City og Braga í næstu viku áður en hann tekur við stjórnartaumunum á Old Trafford 11. nóvember n.k.
Hinn 39 ára gamli stjóri sagði frá því í viðtali að hann hafi eytt þremur dögum í að ákveða sig og hafi hann skipt um skoðun margsinnis í ferlinu áður en hann hafi á endanum ákveðið að taka við Manchester United.
„Í upphafi tímabilsins talaði ég við forseta Sporting og sagði honum að hvað sem gerðist þá yrði þetta síðasta tímabil mitt hjá Sporting,“ sagði Amorim.
„Tímabilið fer af stað og við byrjum mjög vel. Síðan kemur upp þessi staða með Manchester United og fulltrúar þeirra mættu á svæðið og borguðu meira en uppsett verð fyrir mig. Ég kom ekki nálægt þeirri tölu og spurði aðeins hvort þetta gæti beðið þar til eftir yfirstandandi tímabil,“ sagði Amorim.
„Í þrjá daga sagði ég að ég vildi ekki yfirgefa Sporting fyrr en eftir tímabilið en mér var sagt að það væri núna eða aldrei, þetta starf yrði ekki í boði eftir tímabilið því Manchester United myndi þá leita að öðrum stjóra,“ sagði Amorim að lokum.