Úrvalsdeildardómari hraunar yfir Klopp og Liverpool

Jürgen Klopp ræðir við David Coote eftir leik Liverpool gegn …
Jürgen Klopp ræðir við David Coote eftir leik Liverpool gegn Burnley árið 2020. AFP/Oli Scarff

Tvö myndskeið af David Coote, dómara í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla, hafa farið í dreifingu á samfélagsmiðlum í dag. Þar sést hann hrauna yfir Jürgen Klopp, fyrrverandi knattspyrnustjóra Liverpool.

Coote dæmdi leik Liverpool gegn Aston Villa í úrvalsdeildinni á laugardagskvöld. Rétt er að vara við orðbragði sem hér fer eftir.

„Hann er kunta, algjör kunta. Fyrir utan það að láta mig heyra það þegar ég var að dæma á móti Burnley þegar það var útgöngubann sakaði hann mig um að ljúga og hraunaði svo yfir mig.

Ég hef engan áhuga á að tala við neinn sem er svona ógeðslega hrokafullur. Ég reyni mitt besta til að ræða ekki við hann. Guð minn góður. Þýsk kunta, andskotinn hafi það,“ er á meðal þess sem Coote segir í myndskeiðinu.

Spurður hvað honum þætti um Liverpool sagði hann einfaldlega: „Liverpool eru ömurlegir.“

Bað um að myndskeiðinu yrði ekki dreift

Í öðru myndskeiði biður Coote svo félaga sinn aldrei nokkurn tímann að dreifa fyrra myndskeiðinu, sem félaginn hyggst verða við svo ferill hans sem dómari verði ekki eyðilagður.

Ekki er vitað að svo stöddu hvenær myndskeiðin voru tekin upp en ljóst þykir að það hafi verið þegar Klopp var við stjórnvölinn hjá Liverpool, en hann hætti störfum í sumar.

Samtök atvinnudómara á Englandi, PGMOL, hafa í stuttri yfirlýsingu gefið það út að þeim sé kunnugt um myndskeið sem hafi farið í dreifingu í dag og séu að rannsaka málið.

Myndskeiðin tvö má sjá hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka