Enski fótboltamaðurinn Luke Shaw verður frá næstu vikurnar vegna meiðsla en hann er samningsbundinn Manchester United.
Það er BBC sem greinir frá þessu en Shaw, sem er 29 ára gamall, sneri aftur til æfinga eftir kálfameiðsli í byrjun nóvembermánaðar. Óvíst er hversu lengi hann verður frá í þetta skiptið.
Bakvörðurinn hefur komið inn á sem varamaður í síðustu þremur leikjum liðsins en hann hefur verið afar óheppinn með meiðsli á undanförnum árum.
Hann lék einungis sex deildarleiki með liðinu á síðustu leiktíð en hann gekk til liðs við United frá Southampton sumarið 2014 fyrir 30 milljónir punda.
„Ég hef gengið í gegnum hæðir og lægðir á síðustu árum en þetta er langerfiðasti kaflinn núna,“ skrifaði varnarmaðurinn í færslu sem hann birti á samfélagsmiðlum.