Óskaði Salah til hamingju með nýja samninginn

Mohamed Salah.
Mohamed Salah. AFP/Paul Ellis

Egypski fjölmiðlamaðurinn Haytham Farouk gaf það sterklega til kynna í vikunni að egypski knattspyrnumaðurinn Mohamed Salah hefði framlengt samning sinn við enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool.

Farouk, sem er fyrrverandi knattspyrnumaður, er góður vinur Salah en hann starfar núna sem sérfræðingur hjá beinSports í Katar.

Birti færslu á X

Samningsmál Salah hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu en samningur hans við Liverpool átti að renna út næsta sumar og því var honum frjálst að semja við annað félag strax í janúar.

„Til hamingju með að hafa endurnýjað samninginn þinn,“ skrifaði Farouk í færslu sem hann birti á samfélagsmiðlinum X.

„Egypski kóngurinn stýrir eigin örlögum,“ bætti Farouk svo við en ekkert hefur þó heyrst úr herbúðum Liverpool um endurnýjun Salah sem hefur skorað 13 mörk og lagt upp önnur átta í 14 leikjum með Liverpool í úrvalsdeildinni á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert