Verður frá í að minnsta kosti eitt ár

Michail Antonio fagnar marki í leik með West Ham United.
Michail Antonio fagnar marki í leik með West Ham United. AFP

Knattspyrnumaðurinn Michail Antonio, sóknarmaður West Ham United, verður frá keppni í eitt ár hið minnsta eftir að hafa lent í alvarlegu bílslysi í Essex á Englandi um helgina.

Antonio fótbrotnaði illa í slysinu og gekkst af þeim sökum undir skurðaðgerð í gær.

The Guardian greinir frá því að í besta falli snúi hann aftur á keppnisvöllinn eftir eitt ár en að í versta falli muni slysið binda enda á feril Antonios, sem er 34 ára gamall.

Hann gekk til liðs við West Ham árið 2015 og hefur síðan þá skorað 83 mörk í 323 leikjum í öllum keppnum. Vann Antonio Sambandsdeild Evrópu með Hömrunum á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert