Spænski knattspyrnustjórinn Pep Guardiola mun ekki stýra öðru félagsliði á ferlinum. Guardiola hefur verið stjóri Manchester City á Englandi frá árinu 2016 og gert liðið að Englandsmeistara í sex skipti.
Hann hefur einnig stýrt Barcelona í heimalandinu og Bayern München í Þýskalandi. Guardiola hefur verið í fremstu röð í þjálfun stanslaust frá árinu 2008. Hann framlengdi samning sinn við City út tímabilið 2026/27 á dögunum.
„Manchester City verður síðasta félagsliðið mitt. Annars ætla ég ekki að tjá mig um framtíð mína núna,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi í dag.
„Ég ætla ekki að flytja í nýtt land og sinna sama starfi og ég geri núna. Ég hef ekki orku í það. Kannski tek ég við landsliði því það er öðruvísi,“ bætti hann við.