Varnarmaðurinn Joe Gomez er hæstánægður með þá ákvörðun að hætta við að yfirgefa enska knattspyrnufélagið Liverpool í sumar.
Gomez var í fyrsta skipti í byrjunarliði Liverpool í Meistaradeildinni á leiktíðinni er liðið mætti Girona á útivelli í vikunni og verður væntanlega í stóru hlutverki næstu vikur vegna meiðsla Ibrahima Konaté.
Newcastle og Liverpool voru búin að gera samkomulag um að Anthony Gordon færi til Liverpool og Gomez í hina áttina, ásamt því að Liverpool myndi borga 45 milljónir punda. Ekkert varð hins vegar úr þeim félagaskiptum og er Gomez sáttur.
„Ég elska félagið og ég elska að vera hérna,“ sagði Gomez, sem var í fyrsta skipti í byrjunarliði Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni er liðið mætti Manchester City í byrjun mánaðar, í samtali við Sky.
„Það kom til greina að yfirgefa félagið en ég er ánægður með að það hafi ekki orðið af því. Ég verð bráðum búinn að vera hérna í áratug og ég tek því ekki sem sjálfsögðum hlut,“ sagði hann.