Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool í ensku úrvalsdeildinni, skaut á stærstu liðin í deildinni á blaðamannafundi í morgun.
Liverpool mætir Brentford á útivelli í 22. umferð deildarinnar á morgun en Liverpool er í efsta sæti deildarinnar með 47 stig og er með fjögurra stiga forskot á Arsenal sem er í öðru sætinu en Liverpool á einnig leik til góða á Arsenal.
Frá því að Arne Slot tók við stjórnartaumunum hjá félaginu síðasta sumar, eftir að Jürgen Klopp lét af störfum, hefur félagið látið lítið fyrir sér fara og var Frederico Chiesa eini leikmaðurinn sem hefur verið keyptur til félagsins síðan Slot tók við.
Á sama tíma hafa helstu keppinautar Liverpool verið duglegir að sækja nýja leikmenn en Englandsmeistarar Manchester City hafa til að mynda keypt þrjá nýja leikmenn í janúarglugganum.
„Samkeppnin í þessari deild er svakaleg og nánast öll félögin í deildinni eyða svakalegum upphæðum í hverjum einasta félagaskiptaglugga,“ sagði Slot.
„Þetta er eitt af því sem gerir deildina svo athyglisverða og áhugaverða. Það eru ákveðin lið sem eyða meira en önnur. Þessi stærstu félög. Það er ein af ástæðum þess að það er mjög erfitt að ætla sér að standa uppi sem sigurvegari hérna.
Við höfum ekki eytt háum fjárhæðum síðan ég kom en erum samt á toppnum, og við erum að berjast við lið sem hafa eytt mjög háum fjárhæðum á undanförnum árum,“ bætti Hollendingurinn við.