Everton og Liverpool mætast í síðasta sinn á Goodison Park í Bítlaborgarslagnum í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu í kvöld.
Everton hefur leikið á Goodison Park síðan 1892 eða í 132 ár. Nýi völlur félagsins, Everton-Stadium, verður reiðubúinn fyrir næsta tímabil og mun liðið því kveðja núverandi völl.
Leikurinn er afar mikilvægur en Liverpool-liðið er í toppsæti deildarinnar með sex stiga forskot og gæti bætt það í níu.
Everton hefur aftur á móti spilað vel undir David Moyes, sem tók aftur við liðinu eftir meira en áratug í burtu, og er í 16. sæti með 26 stig. Leikurinn er afar þýðingarmikill fyrir heimamenn sem vilja sigur gegn nágrönnunum í síðasta heimaleiknum á sögufræga vellinum.
Leikurinn hefst klukkan 19.30 og verður í beinni textalýsingu á mbl.is.