Enzo Maresca, knattspyrnustjóri Chelsea, segir Danann Filip Jörgensen vera orðinn aðalmarkvörð liðsins. Spánverjinn Robert Sánchez hefur verið aðalmarkvörður liðsins á tímabilinu en gert fjölda mistaka.
Jörgensen byrjaði síðasta deildarleik í 2:1-sigri gegn West Ham United en Sánchez var í markinu gegn Brighton í 2:1-tapi í ensku bikarkeppninni um síðustu helgi.
„Ég sagði að lausnin með Filip væri einnig í því skyni að gefa Robert smá tíma til þess að jafna sig andlega og líkamlega. En hugmyndin er ekki að breyta um markvörð í hverjum leik.
Í síðasta úrvalsdeildarleik tefldum við Filip fram og í bikarnum var það Robert. Aðalmarkvörður okkar í augnablikinu er Filip.
Ég ræddi við Robert nokkrum dögum fyrir leikinn gegn West Ham þar sem ég tók þá ákvörðun að spila Filip. Ég talaði ekki aftur við Robert. Það var nákvæmlega eins með Filip.
Þeir vita hvernig staðan er. Svona er hún í augnablikinu og svo sjáum við hvað setur,“ sagði Maresca á fréttamannafundi í dag.
Jörgensen hefur spilað alls 14 leiki fyrir Chelsea í öllum keppnum á tímabilinu, þar af þrjá í deildinni.