Upp úr sauð milli leikmanna Everton og Liverpool þegar liðin mættust í frestuðum leik úr 15. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta á Goodison Park í Liverpool í gær.
Leiknum lauk með jafntefli, 2:2, en James Tarkowski jafnaði metin fyrir Everton þegar átta mínútur voru liðnar af uppgefnum uppbótartíma síðari hálfleiks.
Eftir að dómari leiksins, Michael Oliver, hafði flautað til leiksloka varð allt vitlaust á Goodison Park en Abdoulaye Doucouré, miðjumaður Everton, gekk þá í átt að stuðningsmönnum Liverpool og sussaði á þá.
Við þetta snöggreiddist Curtis Jones, miðjumaður Liverpool, og hann tók hressilega í Doucouré með þeim afleiðingum að allt varð vitlaust á vellinum.
Þá fékk Arne Slot, stjóri Liverpool, að líta rauða spjaldið eftir leikinn fyrir mótmæli, sem og aðstoðarþjálfari Liverpool, Sipke Hulshoff.