Of fljótir á sér – Slot ekki kominn í bann

Arne Slot.
Arne Slot. AFP/Oli Scarff

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur ekki verið úrskurðaður í tveggja leikja bann í ensku úrvalsdeildinni eins og kom fram á heimasíðu deildarinnar fyrr í dag.

Slot fékk beint rautt spjald frá Michael Oliver dómara eftir jafntefli Liverpool gegn Everton, 2:2, í deildinni í gærkvöldi.

Í morgun stóð á heimasíðu úrvalsdeildarinnar að Slot hafi fengið rautt spjald fyrir að nota móðgandi eða dónalegt orðalag í garð dómara og að hann hafi af þeim sökum fengið tveggja leikja bann.

Mannleg mistök

Það er hins vegar ekki rétt þó það gæti enn orðið niðurstaðan að Slot fái tveggja leikja bann.

Málsgreinin um ástæðu rauða spjaldsins og refsingu vegna þess var inni í grein á heimasíðunni um hverjir í deildinni væru komnir í leikbann í um klukkutíma áður en málsgreinin var tekin út.

Samkvæmt breska ríkisútvarpinu var mannlegum mistökum um að kenna að fullyrðingin hafi ratað inn í greinina.

Hið rétta er að enska knattspyrnusambandið á enn eftir að taka ákvörðun um hvort það kæri Slot vegna rauða spjaldsins og mun styðjast við skýrslu Olivers áður en sambandið tekur endanlega ákvörðun þar að lútandi.

Fyrra bann gæti orðið til refsingarauka

Knattspyrnusambandið hefur þrjá virka daga til þess að taka ákvörðun um það og því gæti enn farið svo að Slot verði á hliðarlínunni þegar Liverpool fær Wolves í heimsókn í deildinni næstkomandi sunnudag.

Ákveði enska knattspyrnusambandið að kæra hann ætti sambandið svo eftir að taka ákvörðun um hversu langt bannið yrði.

Þar gæti fyrra bann sem Slot fékk fyrr á tímabilinu, fyrir að fá samtals þrjú gul spjöld, verið tekið með í reikninginn til refsingarauka en það þarf hins vegar ekki að vera að litið verði til fyrra banns í ákvarðanatökunni.

Verði Slot kærður hefur hann svo tvo daga til þess að bregðast við kærunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert