Þrír leikmenn karlaliðs Tottenham Hotspur í knattspyrnu hafa allir hafið æfingar að nýju og gætu tekið þátt í stórleik gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag.
Sky Sports greinir frá því að ítalski markvörðurinn Guglielmo Vicario, enski sóknartengiliðurinn James Maddison og ítalski bakvörðurinn Destiny Udogie séu leikmennirnir þrír sem um ræðir.
Vicario ökklabrotnaði í 4:0-sigri Tottenham á Manchester City í lok nóvember, Maddison tognaði á kálfa fyrir tveimur vikum og Udogie meiddist aftan á læri undir lok síðasta árs.
Leikur Tottenham gegn Man. United fer fram á Tottenham Hotspur-leikvanginum og hefst klukkan 16.30.