Eddie Howe, knattspyrnustjóri Newcastle United, segir að félagið muni ekki hika við að áfrýja rauða spjaldinu sem Anthony Gordon fékk í 2:1-tapi fyrir Brighton & Hove Albion í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í gær sé tilefni til.
Gordon fékk beint rautt spjald fyrir að slá Jan Paul van Hecke í höfuðið með báðum höndum. Er hann því á leið í þriggja leikja bann og missir til að mynda af úrslitaleik deildabikarsins gegn Liverpool ef ekkert breytist.
„Auðvitað. Ef við greinum atvikið og finnst sem það sé grundvöllur fyrir því að áfrýja þá hikum við ekki við það. Ég þyrfti að sjá þetta aftur.
Ég get ekki setið hér og gefið heiðarlegt svar við því þar til ég hef unnið þá vinnu sem þið hafið gert og horft á þetta. En þekkjandi leikmanninn veit ég að það var engin illgirni sem lá að baki,“ sagði Howe á fréttamannafundi eftir leikinn.
Á fundinum var stjórinn einnig spurður út í Alexander Isak og hvort hann væri meiddur en sænski markahrókurinn var tekinn af velli skömmu áður en venjulegum leiktíma lauk.
„Þetta var bara almenn þreyta. Ég held að það sé ekkert vandamál. Eins og ég sagði fyrir leikinn þá var hann að fara að spila væri hann í standi til þess.
Við krossum fingur að það sé í lagi með hann,“ sagði Howe.