Franski knattspyrnumaðurinn Wesley Fofana, varnarmaður Chelsea, vandar ekki fólkinu kveðjurnar sem sendi honum rasísk skilaboð eftir leik liðsins gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Fofana deildi sex skjáskotum af rasískum skilaboðum sem honum bárust á Instagram-aðgangi sínum í dag og skrifaði:
„2025, heimska og grimmd getur ekki lengur farið í felur. Þetta er ekki bara fótbolti. Þetta er ekki bara „leikur“ þegar sumir trúa því að húðlitur þeirra geri þá betri en aðra. Það er tímabært að hlutirnir breytist, að samfélagsmiðlar aðhafist eitthvað og að allir taki ábyrgð.“
Chelsea hefur fordæmt kynþáttaníðið sem Fofana varð fyrir.