Liverpool orðað við alla vinstri bakverði í heimi

Andy Robertson í leik með Liverpool.
Andy Robertson í leik með Liverpool. AFP/Geoffroy van der Hasselt

Andy Robertson, fyrirliði Skotlands og vinstri bakvörður Liverpool, sló á létta strengi á fréttamannafundi á miðvikudag þegar hann var spurður út í framtíð sína hjá enska félaginu.

Liverpool hefur verið orðað við kaup á vinstri bakverði í sumar, þeirra á meðal Milos Kerkez hjá Bournemouth, Jorrel Hato hjá Ajax og Antonee Robinson hjá Fulham.

„Ég held að það sé búið að orða okkur fyrir við nokkurn veginn alla vinstri bakverði í heiminum. Það fylgir því að spila fyrir eitt besta félag heims.

Þegar ég lít til baka á þessi átta ár sem ég hef verið byrjunarliðs bakvörður hjá félaginu finn ég fyrir miklu stolti. Tími manns tekur enda en ég held ekki að tíma mínum sé lokið ennþá.

Jafnvel þó við fáum einhvern inn mun ég alltaf hafa trú á sjálfum mér. Vissulega hafa komið augnablik á þessu tímabili þar sem stjarna mín hefur ekki skinið skært en viðbrögðin hafa í sumum tilvikum verið allt of harkaleg,“ sagði Robertson.

Skotland vann Grikkland 1:0 í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar í Aþenu í gærkvöldi og er því í góðri stöðu fyrir síðari leikinn í Glasgow á sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert