Georgíumaðurinn Giorgi Mamardashvili vill verða aðalmarkvörður enska knattspyrnufélagsins Liverpool um leið og hann mætir næsta sumar.
Liverpool keypti Mamardashvili frá Valencia á 25 milljónir punda síðasta sumar en lánaði hann aftur út til spænska félagsins.
Hann hefur því varið mark Valencia þetta tímabilið en á því næsta verður hann í herbúðum Liverpool.
Brasilíumaðurinn Alisson hefur verið aðalmarkvörður Liverpool undanfarin ár og verið með betri markvörðum heims. Þá hefur varamarkvörður liðsins Caoimhín Kelleher fengið mikið lof þegar hann hefur stigið inn í fjarveru Alisson.
Óljóst er hvað gerist í markvarðarmálum Liverpool næsta sumar en Mamardashvili, sem er í landsliðsverkefni með Georgíu, sagði á blaðamannafundi að skýrt markmið hans væri að verða aðalmarkvörður hjá Liverpool-liðinu.