Líklega ekki meira með

Joelinton er meiddur á hné.
Joelinton er meiddur á hné. AFP/Andy Buchanan

Eddie Howe, knattspyrnustjóri Newcastle United, segir það ólíklegt að brasilíski miðjumaðurinn Joelinton geti tekið frekari þátt á tímabilinu vegna hnémeiðsla.

Joelinton, sem er lykilmaður Newcastle, missti af síðasta leik liðsins gegn Ipswich Town í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi vegna meiðslanna.

„Þegar kemur að Joe þá afskrifar maður hann aldrei. Hann er alltaf svo staðráðinn í að reyna að koma sem fyrst til baka. Við fengum álit sérfræðings og það var að þetta væri ekkert alvarlegt.

En hann þurfti á hvíld að halda þannig að hann er núna heima í Brasilíu. Við sjáum hvað setur og athugum hvort við getum endurheimt hann fyrir lok tímabilsins en að öllum líkindum verður það líklega ekki raunin,“ sagði Howe á fréttamannafundi í dag.

Newcastle er í þriðja sæti deildarinnar í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti og heimsækir Brighton & Hove Albion á sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert