Enn eitt tap United

Tomas Soucek fagnar eftir að hafa komið West Ham yfir …
Tomas Soucek fagnar eftir að hafa komið West Ham yfir gegn Manchester United á Old Trafford í dag. AFP/Oli Scarff

West Ham gerði góða ferð til Manchester er liðið lagði Manchester United, 2:0, í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu í dag. 

Með sigrinum fer West Ham upp fyrir Manchester United í 15. sæti með 40 stig en United er í 16. sæti með 39 stig.

Það voru United-menn sem fóru betur af stað, voru meira með boltann og komust í álitlegar stöður á upphafsmínútunum. Amad Diallo átti góða tilraun sem Areola varði vel. Boltinn datt í kjölfarið fyrir Bruno sem hamraði honum yfir markið. 

Tomas Soucek kom West Ham yfir á 26. mínútu. Mohammed Kudus kom með fasta sendingu fyrir markið á Soucek á fjærstönginni sem skoraði af stuttu færi, 1:0. 

Staðan í hálfleik var 1:0, West Ham í vil. 

Á 57. mínútu tvöfaldaði Jarrod Bowen forystu West Ham. Gamli United-maðurinn Aaron Wan-Bissaka renndi boltanum fyrir markið á Bowen sem skoraði auðveldlega. 

Skömmu síðar fékk varamaðurinn Alejandro Garnacho gott færi til að minnka muninn eftir fyrirgjöf frá Bruno Fernandes en skot hans endaði í hliðarnetinu.

Danski framherjinn Rasmus Höjlund fékk tvö góð færi til að koma United inn í leikinn. Fyrst lagði Amad Diallo boltann á Höjlund sem var einn á móti markmanni en Areola sá við honum. Stuttu síðar skallaði Maguire boltann fyrir Höjlund í markteignum sem náði aftur ekki að koma boltanum framhjá Areola.  

Þrátt fyrir stífa sókn United-manna tókst þeim ekki að skora og West Ham fór með 2:0-sigur af hólmi. 

Man. United 0:2 West Ham opna loka
90. mín. Man. United fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert