Newcastle er í kjörstöðu að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð eftir sigur á Chelsea, 2:0, í 36. umferð ensku úrvalsdeildar karla í knattspyrnu á St James' Park í Newcastle í dag.
Newcastle er komið með 66 stig i þriðja sæti deildarinnar og er með þriggja stiga forystu á Chelsea og Aston Villa sem eru í fimmta og sjötta sæti en efstu fimm liðin fara beint í Meistaradeildina.
Nottingham Forest getur komist í 64 stig með sigri á Leicester á heimavelli á eftir en Chelsea og Forest mætast í síðustu umferðinni.
Sandro Tonali kom Newcastle yfir á annarri mínútu leiksins en á 35. mínútu var framherjinn Nicolas Jackson rekinn af velli eftir að hafa gefið Sven Botman varnarmanni Newcastle glórulaust olnbogaskot.
Seinna mark Newcastle kom ekki fyrr en á 90. mínútu en það skoraði Bruno Guimaraes.
Newcastle heimsækir Arsenal í næstu umferð en Chelsea fær Manchester United í heimsókn.