Sheffield United er komið í úrslitaleik umspils ensku B-deildar karla eftir sannfærandi sigur á Bristol, 3:0, í seinni leik liðanna í undanúrslitum umspilsins í Sheffield í kvöld.
Sheffield vann fyrri leikinn einnig, 3:0, en liðið hafnaði í þriðja sæti B-deildarinnar og Bristol í sjötta.
Kieffer Moore, Gustavo Hamer og Callum O'Hare skoruðu mörk Sheffield.
Sheffield mætir Sunderland eða Coventry í úrslitaleiknum á Wembley þann 24. maí. Sunderland er 2:1-yfir í því einvígi og fær Coventry í heimsókn annað kvöld.
Sigurliðið á Wembley kemst í ensku úrvalsdeildina á næstu leiktíð.