Frakkinn Patrice Evra, fyrrverandi leikmaður Manchester United og franska landsliðsins, segir að Alex Ferguson, hinum sigursæla knattspyrnustjóri United, yrði væntanlega stungið í fangelsi ef hann væri við störf í dag.
Evra rifjaði upp tíma sinn hjá United, þar sem hann lék undir stjórn goðsagnarinnar Fergusons í sjö ár, í hlaðvarpsþættinum SDS.
„Ferguson hefði eflaust lent í fangelsi í dag, miðað við það sem hann gerði. Getið þið ímyndað ykkur hversu marga leikmenn ég sá grátandi eftir að hann hellti sér yfir þá eða grýtti skóm í þá? Hann var vondur maður.
Evra rifjaði upp atvik þegar samherji hans Nani lá grátandi á vellinum eftir harða tæklingu frá Jamie Carragher, varnarmanni Liverpool, í leik á Anfield árið 2011.
Evra sagði að Paul Scholes, miðjumaður United, hefði sagt: „Farðu til fjandans,“ við Nani þegar hann sá að hann var að gráta, og að Ferguson hefði öskrað á hann: „Ég vona að þú sért fótbrotinn, leikmaður United grætur ekki á Anfield.“
Við vorum vondir menn á þessum tíma. Ég bið alla þá ungu leikmenn sem æfðu með okkur afsökunar. Við vorum eins og dýr. Ferguson þurfti að gefa Nani vikufrí til að jafna sig því við biðum eftir að hann kæmi aftur svo við gætum tætt hann í okkur. Það er enn í gangi Whatsapp-hópur innan United með myndinni af Nani grátandi á Anfield," sagði Patrice Evra í hlaðvarpinu, samkvæmt Daily Mail.
Alex Ferguson er 83 ára gamall og var knattspyrnustjóri Manchester United frá 1986 til 2013. Félagið varð 13 sinnum enskur meistari undir hans stjórn, fimm sinnum bikarmeistari og vann Meistaradeild Evrópu tvisvar.