Taiwo Awoniyi, leikmaður Nottingham Forest, varð fyrir alvarlegum meiðslum í leik liðsins gegn Leicester í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu um síðustu helgi og í kjölfarið er farin af stað umræða um breytingar á starfsaðferðum aðstoðardómara.
Antony Elanga, sóknarmaður Forest, var rangstæður í upphafi sóknarinnar sem leiddi til þess að Awoniyi rakst harkalega á aðra markstöngina með þeim afleiðingum að hann varð fyrir alvarlegum innvortis áverkum og samkvæmt heimildum BBC sprakk ristill hans.
Aðstoðardómarinn lyfti ekki flaggi sínu til merkis um rangstöðu, í samræmi við nýju reglurnar um að leikurinn eigi að ganga áfram þar til ljóst sé hvort rangstaðan hafi áhrif á viðkomandi sókn eða ekki.
Margir hafa gagnrýnt þessa reglubreytingu, m.a. Keith Hackett, fyrrverandi dómari í úrvalsdeildinni, sem sagði að með þessu ykist hætta á meiðslum leikmanna verulega.
Nokkur atvik hafa átt sér stað í deildinni undanfarin ár þar sem leikmenn hafa meiðst í kjölfar þess að aðstoðardómari lyfti ekki flagginu þó um augljósa rangstöðu væri að ræða.
Rui Patricio, markvörður Wolves, var m.a. borinn af velli í leik gegn Liverpool eftir að hafa fengið höfuðhögg í árekstri við samherja sinn, Conor Coady.
John Stones og Ederson, varnarmaður og markvörður Manchester City, meiddust með þriggja vikna millibili á síðasta tímabili, báðir eftir að flagg fór ekki á loft þó um rangstöðu væri að ræða.