Spænska knattspyrnufélagið Real Madrid hefur samþykkt að greiða 50 milljónir punda fyrir varnarmanninn efnilega Dean Huijsen sem hefur slegið í gegn með Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni.
BBC greinir frá þessu en í samningi varnarmannsins er klásúla um að hann sé falur fyrir 50 milljónir punda.
Huijsen hefur átt frábært tímabil með Bournemouth en hann varð tvítugur í síðasta mánuði. Hann er fæddur í Hollandi og lék með yngri landsliðum Hollendinga en tók síðan upp spænskt ríkisfang og hefur þegar leikið tvo A-landsleiki fyrir Spán, ásamt því að leika með 21-árs landsliði þjóðarinnar.
Hann fæddist í Amsterdam, ólst upp á Spáni, og fór 16 ára gamall til Juventus á ítalíu. Hann lék sem lánsmaður hjá Roma hluta af tímabilinu 2023-24 og Bournemouth keypti hann síðan af Juventus síðasta sumar fyrir tæplega 13 milljónir punda.
Það er því ljóst að félagið hagnast vel á honum en auk Real Madrid hefur hann verið orðaður við öll stærstu félögin í enskku úrvalsdeildinni eftir frammistöðu sína með Bournemouth í vetur.