Kveður með 500. leiknum

Jamie Vardy kveður Leicester á sunnudaginn.
Jamie Vardy kveður Leicester á sunnudaginn. AFP/Justin Tallis

Jamie Vardy mun spila sinn síðasta leik fyrir enska knattspyrnufélagið Leicester City á sunnudaginn, þrátt fyrir að liðið eigi þá einn leik eftir í ensku úrvalsdeildinni.

Leicester mætir Ipswich á heimavelli í næstsíðustu umferðinni á sunnudag. Það verður 500. leikur Vardys fyrir Leicester og hann hefur gert samkomulag við félagið um að það verði kveðjuleikurinn á mögnuðum þrettán ára ferli hans með liðinu.

Vardy hefur í 499 leikjum skorað 199 mörk og því vonast heimamenn eftir því að hann skori gegn Ipswich og kveðji því með 200 mörk í 500 leikjum.

Leicester heimsækir Bournemouth í lokaumferðinni en ákveðið er að Vardy muni ekki taka þátt í þeim leik.

Vardy kom til Leicester frá Fleetwood Town, sem þá  var utandeildalið, sumarið 2012. Hann var þá orðinn 25 ára gamall og hafði aldrei leikið í ensku deildakeppninni en Leicester greiddi fyrir hann eina milljón punda sem var metupphæð fyrir leikmann úr fimmtu efstu deild.

Hann hefur heldur betur skilað sínu, var í liði Leicester sem varð öllum að óvörum enskur meistari árið 2016 og vann enska bikarinn með því árið 2021. Þá vann Vardy ensku B-deildina með Leicester árin 2014 og 2024. og var kjörinn knattspyrnumaður ársins í úrvalsdeildinni tímabilið 2015-2016.

Hann lék með enska landsliðinu á EM 2016 og HM 2018 og skoraði 7 mörk í 26 landsleikjum.

Þó Vardy sé orðinn 38 ára gamall hefur hann fullan hug á að halda áfram og reiknar með því að spila í það minnsta eitt tímabil í viðbót með einhverju öðru liði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert