Liverpool lækkar kröfurnar um helming

Trent Alexander-Arnold á aðeins tvo leiki eftir í búningi Liverpool.
Trent Alexander-Arnold á aðeins tvo leiki eftir í búningi Liverpool. AFP/Oli Scarff

Ensku meistararnir Liverpool eiga í viðræðum við Real Madrid um greiðslu fyrir knattspyrnumanninn Trent Alexander-Arnold, fari hann til spænska félagsins áður en samningur hans hjá Liverpool rennur út þann 1. júlí.

Ekki hefur verið gefið opinberlega út að Alexander-Arnold gangi til liðs við Real Madrid í sumar en gengið er út frá því sem vísu.

Real Madrid mun hafa mikinn hug á að nota hann á heimsmeistaramóti félagsliða sem hefst í júní en þá þarf hann að losna frá Liverpool.

Spænski fjölmiðillinn Defensa Central segir að Liverpool vilji fá greiðslu, fari bakvörðurinn fyrir 1. júlí. Liverpool hafi upphaflega farið fram á 2,5 milljónir punda en sé nú búið að lækka kröfuna niður í 1,3 milljón punda.

Defensa Central segir Real Madrid reiðubúið til að greiða þá upphæð, eftir að hafa upphaflega krafist þess að fá hann lausan án greiðslu.

Heimsmeistaramót félagsliða hefst í Bandaríkjunum 14. júní þar sem 32 lið frá sex heimsálfum taka þátt. Þar er Real Madrid í H-riðli ásamt Al Hilal frá Sádi-Arabíu, Pachuca frá Mexíkó og Salzburg frá Austurríki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert