Son Heung-Min, fyrirliði Tottenham Hotspur, hefur lagt fram kæru á hendur konu á þrítugsaldri og karli á fimmtugsaldri í heimalandi sínu Suður-Kóreu vegna fjárkúgunar.
Breska ríkisútvarpið skýrir frá því að konan og karlinn hafi verið handtekin í Gangnam í Seúl, grunuð um fjárkúgun og tilraun til fjárkúgunar.
Kúgunin laut að því að konan laug því að Son að hún bæri barn hans undir belti og hafi á síðasta ári krafist peninga til þess að halda því leyndu.
Karlinn hafi svo fylgt því eftir í mars síðastliðnum og krafið Son um að greiða sér pening vegna óléttu konunnar, sem reyndist ekki vera ólétt.
Í tilkynningu frá lögmannsteymi Sons segir að hann sé augljóslega fórnarlambið í málinu.