Sýnd þolinmæði á Stamford Bridge

Enzo Maresca verður áfram hjá Chelsea.
Enzo Maresca verður áfram hjá Chelsea. AFP/Caisa Rasmussen

Enzo Maresca verður áfram knattspyrnustjóri Chelsea á næsta tímabili, hvort sem félagið tryggir sér sæti í Meistaradeild karla eða ekki.

Chelsea er í harðri baráttu um að ná einu af fimm efstu sætum ensku úrvalsdeildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir og varð fyrir bakslagi um síðustu helgi þegar liðið tapaði 2:0 fyrir Newcastle.

Þolinmæði hefur ekki verið aðalsmerki stjórnenda félagsins en BBC segir að forráðamenn félagsins ætli að meta störf ítalska knattspyrnustjórans að næsta tímabili loknu.

Chelsea er í fimmta sætinu, með betri markatölu en Aston Villa, og mætir Manchester United og Nottingham Forest í síðustu tveimur leikjunum. Útileikurinn gegn Forest gæti orðið að hreinum úrslitaleik um Meistaradeildarsæti.

Þá er liðið komið í úrslitaleik Sambandsdeildarinnar þar sem það mætir Real Betis 28. maí í Wroclaw í Póllandi.

Maresca, sem er 45 ára gamall, tók við Chelsea síðasta sumar, eftir að hafa stýrt Leicester í eitt ár og komið liðinu upp í úrvalsdeildina sem meisturum B-deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert