Sænski knattspyrnumaðurinn Dejan Kulusevski leikur ekki á ný með Tottenham fyrr en í haust eftir að hafa gengist undir aðgerð á hné.
Tottenham skýrði fyrst frá meiðslum hans í gær en þá var til að byrja með ekki útilokað að hann gæti spilað úrslitaleik Evrópudeildarinnar gegn Manchester United næsta miðvikudag.
Ange Postecoglou, knattspyrnustjóri Tottenham, skýrði hins vegar frá því á fréttamannafundi í hádeginu í dag að Svíinn yrði nokkra mánuði að jafna sig og yrði ekki leikfær fyrr en í haust.
Kulusevski varð fyrir meiðslunum í leik Tottenham gegn Crystal Palace um síðustu helgi.
Landi hans, miðjumaðurinn ungi Lucas Bergvall, er í kapphlaupi við tímann um að ná úrslitaleiknum en hann er einnig úr leik sem stendur vegna meiðsla. „Það er ólíklegt að hann nái að verða leikfær í tæka tíð," sagði Postecoglou.