Taiwo Awoniyi, nígeríski knattspyrnumaðurinn hjá Nottingham Forest, hefur verið vakinn á ný eftir stóra aðgerð í kjölfarið á slysinu í leiknum gegn Leicester um síðustu helgi þegar hann rakst harkalega á aðra markstöngina með þeim afleiðingum að hann varð fyrir alvarlegum innvortis áverkum.
Samkvæmt enskum fjölmiðlum sprakk ristill Nígeríumannsins en slíkt er flokkað sem lífshættulegur áverki.
Margir hafa gagnrýnt þá ákvörðun aðstoðardómara leiksins að veifa ekki strax á augljósa rangstöðu á Anthony Elanga, samherja Awoniyis, í aðdraganda atviksins. Leikurinn var látinn halda áfram og Awoniyi rakst harkalega á stöngina þegar hann reyndi að ná til boltans.
„Anthony var kílómeter fyrir innan vörnina, það sá hvert einasta mannsbarn. Hvers vegna fór flaggið ekki bara á loft. Þá hefði ekkert gerst," segir Ola Aina, leikmaður Nottingham Forest, við Daily Mail.