Þýski knattspyrnumaðurinn Florian Wirtz hefur verið orðaður við ensku úrvalsdeildina að undanförnu en hann er samningsbundinn Bayer Leverkusen í Þýskalandi.
Englandsmeistarar Liverpool og Manchester City hafa bæði mikinn áhuga á þýska sóknarmanninum sem er 22 ára gamall.
Hann hefur einnig verið sterklega orðaður við Þýskalandsmeistara Bayern München og Real Madrid en enskir fjölmiðlar greindu frá því á dögunum að leikmaðurinn hefði hitt forráðamenn bæði Liverpool og City á Englandi á dögunum.
Max Eberl, yfirmaður knattspyrnumála hjá Bayern München, var spurður út í framtíð Wirtz á dögunum en Bæjarar hafa í gegnum tíðina lagt allt kapp á það að semja við sterkustu leikmenn Þýskalands.
„Ef hann fór til Englands þá er væntanlega góð og gild ástæða fyrir því,“ sagði Eberl í samtali við enska miðilinn Mirror.
„Það er ekki mitt að tjá mig um það hvert hann fer í sínum frítíma. Honum er frjálst að ferðast til Liverpool og Manchester, alveg eins og honum er frjálst að fara til Madrídar líka,“ bætti Eberl við en Wirtz er samningsbundinn Leverkusen til sumarsins 2027 og kostar í kringum 130 milljónir evra.