Salah: Svona gerum við ekki hjá Liverpool

Mohamed Salah og Trent Alexander-Arnold fagna marki saman.
Mohamed Salah og Trent Alexander-Arnold fagna marki saman. AFP/Paul Ellis

Mohamed Salah, markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, hefur gagnrýnt stuðningsfólk Liverpool sem baulaði á Trent Alexander-Arnold í leiknum gegn Arsenal um síðustu helgi.

Alexander-Arnold er á förum frá Liverpool í sumar eftir að hafa alist þar upp og gengur væntanlega til liðs við Real Madrid. Sumt af stuðningsfólki félagsins hefur verið ósátt við að hann yfirgefi félagið án þess að það fái greiðslu fyrir hann.

Ákveðinn hópur á Anfield baulaði á bakvörðinn í hvert skipti sem hann fékk boltann í leiknum en honum var skipt inn á sem varamanni í síðari hálfleiknum.

„Ég var undrandi á þessu því svona eigum við ekki að gera sem stuðningsmenn Liverpool. Svona eigum við ekki að koma fram við neinn leikmann," sagði Salah í viðtali við Gary Neville hjá Sky Sports.

„Við eigum að sýna öllum virðingu þó þeir séu bara með okkur í sex mánuði, hvað þá ef þeir hafa  gefið félaginu allt sitt í tuttugu ár.

Svona á þetta ekki að vera og ég vona að þetta breytist strax í leiknum gegn Brighton eða í lokaleik tímabilsins því hann verðskuldar að vera kvaddur með virktum," sagði Mohamed Salah.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert