Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, vill fá nýjan markvörð til félagsins í sumar.
Það er Manchester Evening News, staðarmiðillinn í Manchester, sem greinir frá þessu en Kamerúninn André Onana er markvörður númer eitt hjá félaginu í dag.
Hann hefur gert sig sekan um nokkur slæm mistök síðan hann gekk til liðs við United frá Inter Mílanó, sumarið 2023, fyrir 43,8 milljónir punda.
Í frétt Manchester Evening News kemur meðal annars fram að það sé ekki forgangsatriði hjá félaginu að kaupa nýjan markvörð og ef félaginu tekst ekki að selja Onana verður að teljast ólíklegt að félagið muni eyða háum fjárhæðum í markvarðastöðuna.
Portúgalski markvörðurinn Diogo Costa er einn þeirra sem hefur verið orðaður við United að undanförnu en hann er samningsbundinn Porto í Portúgal, heimalandi Amorims.