Amorim hótaði að hætta störfum hjá United

Ruben Amorim.
Ruben Amorim. AFP/Oli Scarff

Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, hótaði því að hætta störfum hjá félaginu í janúarmánuði.

Það er ESPN sem greinir frá þessu en Amorim, sem er fertugur, tók við stjórnartaumunum hjá félaginu í nóvember á síðasta ári þegar Erik ten Hag var rekinn.

Í janúar bárust fréttir af því að Amorim hefði brotið sjónvarpsskjá í búningsklefa félagsins en The Athletic greindi frá atvikinu.

Ósáttur við lekann

Amorim var vægast sagt ósáttur við það að fréttir af atvikinu skyldu leka í fjölmiðla og hótaði því að láta af störfum hjá félaginu.

Stjórnarmenn félagsins töluðu hann hins vegar af því og liðið mætir Tottenham í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í Bilbao á Spáni á morgun.

Gengi liðsins í deildinni hefur hins vegar verið langt undir væntingum en United er með 39 stig í 16. sætinu eftir 37 umferðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert