Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester City hafa dregið sig úr kapphlaupinu um þýska sóknarmanninn Florian Wirtz.
Það er The Times sem greinir frá þessu en Wirtz, sem er 22 ára gamall, er samningsbundinn Bayer Leverkusen í þýsku 1. deildinni.
Sóknarmaðurinn hefur verið sterklega orðaður við Bayern München, Manchester City og Liverpool að undanförnu en þýska félagið vill fá í kringum 125 milljónir punda fyrir Wirtz.
Forráðamenn City hafa ekki áhuga á því að borga uppsett verð og hafa því dregið sig úr baráttunni um hann og eftir standa því Bayern München og Liverpool.
Þrátt fyrir unga aldur á Wirtz að baki 197 leiki fyrir Leverkusen þar sem hann hefur skorað 57 mörk og lagt upp önnur 65 til viðbótar.
Real Madrid er einnig sagt áhugasamt um leikmanninn en talið er næsta víst að hann yfirgefi Leverkusen í sumar.