Spænski knattspyrnumaðurinn Rodri er klár í slaginn með Manchester City, átta mánuðum eftir að hann sleit krossband.
Rodri, sem er 28 ára gamall, er í leikmannahóp City sem tekur á móti Bournemouth í 37. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í Manchester í kvöld og gæti fengið tækifæri í leiknum.
Rodri hefur misst af nánast öllu tímabilinu með City en hann hefur verið algjör lykilmaður á miðsvæðinu hjá liðinu.
Rodri hlaut meðal annars Gullknöttinn, Ballon d'Or-verðlaunin eftirsóttu, síðasta haust fyrir frammistöðu sína á síðasta keppnistímabili.
Hann gekk til liðs við City frá Atlético Madrid sumarið 2019 fyrir 63 milljónir punda og á að baki 260 leiki fyrir félagið þar sem hann hefur skorað 26 mörk. Hann hefur unnið allt sem hægt er að vinna með City og þá varð hann Evrópumeistari með Spánverjum í Þýskalandi í fyrra.