Þrír sóknarmenn Liverpool á förum í sumar?

Diogo Jota og Darwin Núnez gætu báðir yfirgefið Liverpool í …
Diogo Jota og Darwin Núnez gætu báðir yfirgefið Liverpool í sumar. AFP/Paul Ellis

Þrír sóknarmenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool gætu yfirgefið félagið í sumar.

Það er Sky Sports sem greinir frá þessu en talið er næsta víst að úrúgvæski framherjinn Darwin Núnez muni yfirgefa félagið þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður.

Þá er einnig áhugi á kólumbíska sóknarmanninum Luis Díaz og portúgalska sóknarmanninum Diogo Jota.

Gætu freistast til þess að selja

Díaz hefur verið í stóru hlutverki hjá félaginu á keppnistímabilinu þar sem hann hefur skorað 17 mörk í 49 leikjum í öllum keppnum, ásamt því að leggja upp átta mörk.

Jota hefur skorað níu mörk og lagt upp önnur fjögur í 36 leikjum í öllum keppnum en Liverpool vill fá 50 milljónir punda fyrir hann og 90 milljónir punda fyrir Díaz.

Forráðamenn Liverpool ætla sér stóra hluti á félagaskiptamarkaðnum í sumar og gætu freistast til þess að selja alla þrjá leikmennina til þess að fjármagna önnur kaup.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert