Tvö rauð spjöld og fjögur mörk í Manchester

Omar Marmoush í baráttunni í kvöld.
Omar Marmoush í baráttunni í kvöld. AFP/Paul Ellis

Manchester City er í góðri stöðu í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu í fótbolta á næsta tímabili eftir heimasigur á Bournemouth, 3:1, í næstsíðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld.

City er nú með 68 stig í þriðja sæti, tveimur stigum meira en Aston Villa, Chelsea og Newcastle og þremur stigum á eftir Arsenal í öðru sæti.

Omar Marmoush kom City yfir á 14. mínútu og Bernardo Silva tvöfaldaði forskotið á 38. mínútu. Var staðan í leikhléi því 2:0.

Mateo Kovacic hjá City fékk beint rautt spjald á 67. mínútu og sex mínútum síðar fékk Lewis Cook rautt spjald hjá Bournemouth.

Eberechi Eze skoraði fyrir Palace.
Eberechi Eze skoraði fyrir Palace. AFP/Adrian Dennis

Nico González kom City í 3:0 á 89. mínútu áður en Daniel Jebbison klóraði í bakkann fyrir Bournemouth í uppbótartíma.

Nýkrýndir bikarmeistarar Crystal Palace sigruðu Wolves, 4:2, á heimavelli. Emmanuel Agbadou kom Wolves þó yfir á 24. mínútu en eftir það var komið að Palace.

Eddie Nketiah jafnaði á 27. mínútu og kom Palace yfir fimm mínútum síðar. Ben Chilwell gerði þriðja mark Palace á 50. mínútu en Wolves neitaði að gefast upp því Jörgen Strand Larsen minnkaði muninn í 3:2 á 62. mínútu.

Palace átti hins vegar lokaorðið því Ebereche Eze, sem var hetjan gegn Manchester City í bikarúrslitum, skoraði fjórða mark liðsins á 86. mínútu og þar við sat.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert