Enski knattspyrnumaðurinn Jay Emmanuel-Thomas, sem ólst upp hjá Arsenal, hefur játað að hafa átt þátt í stórfelldu eiturlyfjasmygli.
Emmanuel-Thomas var handtekinn á London Stansted flugvellinum í september síðastliðnum þegar 60 kg af kannabis fundust í ferðatöskum eftir komu hans frá Taílandi.
Samkvæmt breska ríkisútvarpinu er götuvirði eiturlyfjanna 600.000 pund, jafnvirði rúmlega 103 milljóna íslenskra króna.
Eftir að Emmanuel-Thomas, sem er 34 ára gamall, var ákærður sagði skoska félagið Greenock Morton upp samningi hans.
Emmanuel-Thomas þótti mikið efni þegar hann kom upp úr unglingastarfi Arsenal og lék alls fimm leiki fyrir liðið í öllum keppnum. Lék sóknarmaðurinn auk þess sjö landsleiki fyrir yngri landslið Englands.
Refsing hans verður ákveðin síðar fyrir rétti í Chelmsford.