Guardiola hótar að hætta

Pep Guardiola.
Pep Guardiola. AFP/Glyn Kirk

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, segist munu segja starfi sínu lausu ef félagið minnkar ekki leikmannahóp hans fyrir næsta tímabil.

„Ég sagði við félagið að ég vil ekki stærri hóp. Ég vil ekki skilja fimm eða sex leikmenn eftir í kuldanum. Ég vil það ekki. Ég mun þá hætta. Minnkið hópinn og þá verð ég áfram.

Það er ómögulegt fyrir sálartetrið mitt að segja leikmönnum mínum að þeir geti ekki spilað og þurfi að vera uppi í stúku. Í þrjá eða fjóra mánuði gátum við varla valið 11 leikmenn,“ sagði Guardiola á fréttamannafundi í gærkvöldi. 

Ekki að fara að gerast

Vísaði hann þar til meiðslavandræða Man. City fyrr á tímabilinu.

„Okkur skorti varnarmenn, þetta var svo erfitt. Eftir það sneru leikmenn aftur en á næsta tímabili getur þetta ekki verið þannig.

Sem knattspyrnustjóri get ég ekki þjálfað 24 leikmenn og látið fjóra til sex leikmenn vera eftir heima í Manchester því þeir geta ekki spilað. Ég sagði við félagið að þetta sé ekki að fara að gerast, ég vil það ekki,“ bætti Guardiola við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert