Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, vildi ekki svara spurningu fréttamanns með beinum hætti á fréttamannafundi í dag.
Þar var hann spurður hvort liðið hafi átt betra tímabil, Arsenal eða Tottenham Hotspur, í ljósi þess að Tottenham vann Evrópudeildina í gærkvöldi en Arsenal vann engan titil á tímabilinu.
Arsenal er í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar á meðan Tottenham er í 17. sæti af 20 liðum.
„Ég vil ekki bera okkur saman við önnur lið. Starf mitt er fólgið í því að greina liðið mitt,“ sagði Arteta.
Spænski stjórinn bar þó Arsenal-lið sitt við Liverpool á fréttamannafundi í síðustu viku þegar hann sagði að stigafjöldi sinna manna á síðasta tímabili, 89, hefði nægt til þess að vinna ensku úrvalsdeildina í ár.
Englandsmeistarar Liverpool eru með 83 stig þegar ein umferð er óleikin.