Lykilmenn United á förum?

Alejandro Garnacho og Bruno Fernandes.
Alejandro Garnacho og Bruno Fernandes. AFP/Andy Buchanan

Knattspyrnumennirnir Bruno Fernandes og Alejandro Garnacho, leikmenn Manchester United, útiloka ekki að yfirgefa félagið í sumar.

Fyrirliðinn Fernandes ræddi við fréttamenn eftir 1:0-tap fyrir Tottenham Hotspur í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í gærkvöldi og var þá spurður út í framtíð sína.

„Ég hef ávallt sagt að ég verði hérna þar til félagið segir mér að það sé tímabært fyrir mig að fara. Ég vil gjarna gera meira og koma félaginu aftur á góðan stað.

Þegar sá dagur rennur upp að félaginu finnst ég taka of mikið pláss eða að það sé tímabært að láta leiðir skilja þá er fótboltinn þannig, maður veit aldrei. En ég hef ávallt sagt að ég stend við orð mín á sama hátt.

Ef félaginu finnst tímabært að láta leiðir skilja því það vill fá pening í kassann eða eitthvað svoleiðis þá er það bara eins og það er og fótboltinn er stundum svona,“ sagði Portúgalinn.

Við unnum enga

Garnacho ræddi sömuleiðis við fréttamenn eftir úrslitaleikinn og var verulega ósáttur við að hafa ekki spilað meira í honum.

„Þetta er augljóslega erfitt fyrir alla eftir þetta tímabil, sem var fullkomlega ömurlegt, bæði núna og eftir að við töpuðum í leiknum um Samfélagsskjöldinn. Við unnum enga.

Fram að úrslitaleiknum hafði ég spilað í hverri einustu umferð og hjálpað liðinu. Í dag spilaði ég 20 mínútur. Ég veit ekki með þetta,“ sagði Argentínumaðurinn.

Hann var þá spurður út í framtíð sína og sagði: „Þessi leikur hefur áhrif en þetta tímabil og ástandið hjá félaginu... ég ætla að reyna að njóta sumarsins og sjá hvað gerist næst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert